Opnað hefur verið fyrir námsval næsta skólaárs
Nú hefur verið opnað fyrir námsval næsta skólaárs á heimasíðu Rimaskóla. Þetta val er ætlað þeim nemendum sem byrja í 8. - 10. bekk haustið 2018. Valið er að þessu sinni rafrænt og verður opið til miðnættis sunnudaginn 22. apríl.
Hér má nálgast valgreinabækinginn með útskýringum á valáföngum næsta skólaárs og valblöðin eru undir flipanum námsval á heimasíðunni.
Við biðjum foreldra/forráðamenn að fara yfir valið með börnum sínum.
Valið er bindandi og ekki er gert ráð fyrir breytingum að hausti.
Íslandsævintýri á föstudagsfjöri 7. bekkjar
Krakkarnir í 7. bekk buðu upp á afar skemmtilega og fjölbreytta dagskrá á föstudagsfjöri fyrir fullum sal áhorfenda. Fjörið var byggt upp á Íslandsheimsókn dæmigerðra túrista sem hittu fyrir dæmigerða íslenska ferðaþjónustubændur. Samskiptin byggðust oftar en ekki upp á fyndnum misskilningi þegar ólík tungumál eru annars vegar. Að sjálfsögðu voru ferðamennirnir komnir til að njóta íslenskrar náttúru, kynnast menningunni og ekki síst matarmenningunni. Nemendur sömdu þetta þrælfyndna leikrit algjörlega sjálfir. En þrátt fyrir ýmsan misskilning gesta og ferðabænda þá fengu túristarnir að njóta frábærra tónlistaratriða sem nemendur 7. bekkjar fluttu af mikilli færni, kynntust íslenskri náttúru og nemendum í skemmtilegu myndbandsatriði og skelltu sér loks í Sumbadans. Dagskráin var óvenju löng en það skipti litlu máli því hvert atriði var áhugavert og skemmtilegt. Virkilega hæfileikaríkir nemendur í 7. bekk og takk fyrir frábæra skemmtun. (HÁ)
Nemendur 4. bekkjar tóku þátt í söfnunarátaki ABC barnahjálpar
Krakkarnir í 4. bekk eru nú að skila af sér síðustu söfnunarbaukunum eftir söfnunarátakið Börn hjálpa börnum sem ABC barnahjálp stendur fyrir í samstarfi við grunnskóla landsins. Nemendur 4. bekkjar Rimaskóla gengu í hús eða staðsettu sig við verslanir og fyrirtæki með söfnunarbauka. Þau voru tvö til þrjú saman við söfnunina og báru “buff” á höfði merkt ABC til að auðkenna sig. Fyrir afrakstur þessarar söfnunar verður hægt að fjármagna byggingar fjölmarga skóla og heimila fyrir fátæk börn í Afríku og Asíu. Söfnun nemenda Rimaskóla gekk vel að venju og bráðlega fá þau sent viðurkenningarskjal fyrir þátttökuna. (HÁ)
Rimaskóli sendi öflugt lið í Skólahreysti 2018
Það var jöfn og spennandi keppni í riðli Rimaskóla í Skólahreysti 2018. Í liði Rimaskóla voru öflugir krakkar úr 9. og 10. bekk undir stjórn Ninnu kennara. Gríðarleg spenna var í riðlinum alla keppnina og liðið okkar sem hafði æft sig að kappi fyrir keppnina fékk mjög góðan stuðning frá samnemendum á pöllunum. Það dugði þó ekki til og krakkarnir okkar komust því miður ekki áfram. Í liði Rimaskóla voru: Aron Fannar Hreinsson, Gauti Guðmundsson, Mikael Gunnar Stefánsson, Bjartur Gabríel Guðmundsson, Diljá Ögn Lárusdóttir, Tinna Sif Aðalsteinsdóttir, Egla Sif Gísladóttir og Elva Katrín Kristgeirsdóttir, öll hreystin uppmáluð og flott íþróttafólk. (JÓ)
Krúsilíus , skólarapp og stafakarlar – Stuð á föstudagsfjöri
Álftir og toppendur í 1. bekk höfðu margt skemmtilegt að flytja okkur áhorfendum sem fylgdumst með föstudagsfjöri hópsins. Þrátt fyrir að standa fyrir framan fullum sal áhorfenda var ekkert hik á þessum yngstu nemendum Rimaskóla heldur allt lagt í að gera sitt besta. Og það tókst. Dansinn Skólarapp og lagið um Krúsilíus komu öllum í gott skap. Nokkrir nemendur létu ljós sitt skína og léku á hljóðfæri. Lengsta atriði dagskrárinnar var að vekja upp alla stafakarlana og reyndust þeir misjafnlega tilbúnir að vakna. Virkilega skemmtileg dagskrá með þessum duglegu nemendum 1. bekkjar. (HÁ)