Það voru tæplega 50 flottir nemendur 10. bekkjar sem kvöddu Rimaskóla á útskriftarhátíð miðvikudagskvöldið 6. júní. Hátíðarsalur skólans var þéttsetinn enda fjölmenni með hverjum nemanda til að fagna með þeim og gleðjast. Dagskráratriðin voru öll á léttum og uppörvandi nótum. Helgi skólastjóri flutti útskriftarræðuna, Baldvin Berndsen formaður Foreldrafélagsins afhenti útskriftarnemum penna og bekkjarmynd. Aron Fannar útskriftarnemi talaði fyrir hönd útskriftarnema og var vel fagnað af bekkjarfélögum. Tinna Heimisdóttir kvaddi nemnendur fyrir hönd Sigynjar og krýndi Melissu „félagsmálatröllið 2018“. Fyrir hönd útskrifaðra nemenda var það enginn annar en fyrirlesarinn Pálmar Ragnarsson, útskrifaður árið 2000, sem ávarpaði krakkanna og gaf þeim holl ráð inn í framtíðina. Tveir 10. bekkingar, þær Hafey Lilja og Birta María, fluttu glæsileg tónlistaratriði. Umsjónarkennararnir Ninna og Rósa afhentu krökkunum útskriftarskírteini og skólastjórnendur veittu nemendum verðlaun og viðurkenningarskjöl fyrir góðan námsárangur, framfarir í námi og góða ástundun. Stjórn útskriftar var í traustum höndum Mörtu aðstoðarskólastjóra. Eftir athöfnina á sal beið útskriftargesta hlaðborð kræsinga sem foreldrar lögðu á borðið og hátíðargestir nutu vel á gleðistundu. Söknuður og gleði fylgja eðlilega kveðjustund, en eitt er víst að frá Rimaskóla er að útskrifast mikill fyrirmyndarhópur nemenda. (HÁ)