Þrjár fjölmennar jólaskemmtanir voru haldnar í Rimaskóla síðasta skóladag fyrir jól. Að venju var dagskrá jólaskemmtana tvískipt. Stofujól í bekkjarstofu og jóladagskrá í fagurlega skreyttum hátíðarsal skólans.  Nemendur 4. bekkjar stóðu sig óaðfinnanlega þegar þeir fluttu helgileikinn um boðskap jólanna og sungu hátíðlega jólasöngva. Í framhaldi af helgileiknum mættu nemendur 7. bekkjar á svið með glænýtt jólaleikrit sem þau sömdu með leikstjórunum Agnari Jóni og Siggu Eyrúnu.  Leikritið sem nefnist „Jólaholan“ var fullt af lífi og fjöri enda jólasveinar þarna á ferðinni, álfahópur og hyskið Grýla, Leppalúði og jólakötturinn. Krakkarnir í 7. bekk slógu algjörlega í geng með bráðskemmtilegu leikriti, góðum leik, söng og hljóðfæraleik. Þau hlutu að launum dúndrandi lófaklapp frá áhorfendum sem voru fjölmennir á öllum sýningunum eins og áður segir. Krakkarnir í 1. – 4. bekk gengu í kringum jólatréð og tóku vel undir jólalögin og hreyfisöngvana.  Allir sem komu að jólaskemmtunum Rimaskóla fóru í jólaleyfið í góðum gír og léttu jólaskapi. Gleðileg jól. (HÁ)