Bangsadagur í 1. og 2. bekk

Alþjóðlegi bangsadagurinn er 27. október. Dagurinn er haldinn hátíðlegur m.a. í leik- og grunnskólum og á bókasöfnum. Í tilefni bangsadagsins mættu nemendur í 1. og 2. bekk Rimaskóla með bangsa og einhverjir líka í náttfötum. „Bangsagestirnir“ kunnu vel við sig í skólastofunum og ekki var að sjá að þeir trufluðu neitt eigendur sína við vinnuna, þ.e. skólaverkefnin.  Saga dagsins er þannig að Theodore (Teddy) Roosevelt fyrrum forseti Bandaríkjanna var eitt sinn á veiðum ásamt félögum sem allir höfðu skotið einhver dýr. Félagarnir eltu uppi björn sem þeir bundu fastan upp við tré og skoruðu á Theodore að skjóta björninn. Teddy fékkst engan veginn til þess. Þessi atburður var uppsprettan af skopmynd sem birtist í Washington Post 1902 og varð kveikjan að framleiðslu á tuskubangsa sem kallaður var Teddy´s bear. Teddy´s bear varð strax mjög vinsæll og um framhaldið vitum við nú flest. Alþjóðlegi bangsadagurinn er haldinn hátíðlegur ár hvert á fæðingardegi Theodore Roosevelt 27. október. (HÁ)