Skip to content

Rimaskóli gefur ekki eftir Miðgarðsbikarinn

Rimaskólakrakkar fjölmenntu, sáu og sigruðu á Miðgarðsmótinu 2019, skákmóti grunnskólasveita í Grafarvogi. Fjórar skáksveitir skólans lentu í fimm efstu sætunum.  Alls tóku 13 skáksveitir þátt í mótinu frá 5 skólum og í hverri sveit voru 6 liðsmenn. Rimaskóli sem mætti með 5 efnilegar og sterkar skáksveitir til leiks hefur verið fastheldinn á sigurinn í mótinu allt frá byrjun og engin breyting varð á því nú. A sveit Rimaskóla, allir bekkjarbræður í 8. bekk, höfðu yfirburði og hlutu 40 vinninga af 42 mögulegum. Í sveitinni voru þeir Joshua, Arnór G., Anton Breki, Kjartan Karl, Ríkharð Skorri og Bjarki Kröyer. B sveit Rimaskóla lenti í 2. sæti, drengir í 4. – 5 bekk og á eftir þeim í 3. sæti lenti stúlknasveit Rimaskóla, stúlkur í 1. – 7. bekk, hálfum vinningi á undan A sveit Vættaskóla. Í fimmta sæti lenti enn ein Rimaskólasveitin, C sveitin. Landsbankinn verðlaunaði 5 efstu sveitirnar með eftirsóttum bíómiðum. Þjónustumiðstöðin Miðgarður er í samstarfi við Skákdeild Fjölnis um framkvæmd þessa flotta móts og sá Miðgarður um að gefa verðlaunagripi og medalíur auk þess að næra alla þátttakendur af ávaxtasafa og ávöxtum sem allir kunnu vel að meta. Um 80 grunnskólakrakkar í Grafarvogi tóku þátt í mótinu og stóðu sig fádæma vel. Tefldar voru 7 umferðir Monrad og baráttan um verðlaunasætin fimm reyndist verulega spennandi. Umsjón með Miðgarðsmótinu 2019 höfðu þau Helgi Árnason formaður skákdeildar Fjölnis og Sara Ósk Rodriguez frá Miðgarði.

 

Úrslit:

Rimaskóli A sveit                          40 vinninga

Rimaskóli B                                      32  vinninga

Rimaskóli A stúlkur                     26 vinninga

Vættaskóli A                                   25,5 vinninga

Rimaskóli C                                     22,5 vinninga