Skip to content

„Fjörinu ætlaði bara aldrei að ljúka“

Óðinshanar og Lóur í 4. bekk skemmtu nemendum og foreldrum með skemmtilegri og fjölbreyttri dagskrá á föstudagsfjöri. Að venju var margt um manninn, ekki síst á foreldrabekkjunum. Ekkert foreldri í Rimaskóla vill missa af föstudagsfjöri. Skemmtiatriðin tengdust öll námi barnanna í samfélagsfræði, tónmennt og dansi. Krakkarnir kynntu sig hver og einn að hætti landnámsmanna sem flestir báru einhver gælunöfn, svo sem Atli grautur, Helgi magri og Helga fagra. Glæsileg dansatriði voru í boði 4. bekkinga undir stjórn Eyrúnar danskennara. Nemendur fluttu nokkur frumsamin tónverk, leikin á sílafóna, stóra og smáa. Grípandi lög og engin feilnóta slegin. Í lok dagskrár söng allur hópurinn Heiðlóarkvæði eftir Jónas Hallgrímsson við undirleik þeirra Elísabetar og Höllu. Foreldrum var í lok dagskrár boðið upp á veitingar og að kynna sér nemendasýningu á bláa gangi, afrakstur vinnunnar um landnám Íslands og landnámsmenn. (HÁ)