Skip to content

Arnór Gunnlaugsson er skákmeistari Rimaskóla, annað árið í röð

Skákmót Rimaskóla fór fram á skólatíma undir stjórn Björns Ívars Karlssonar skákkennara skólans. Um 30 nemendur voru að þessu sinni valdir til þátttöku, þeir nemendur sem mest hafa teflt fyrir hönd skólans á grunnskólamótum vetrarins. Rimaskólasveitir eru þar nánast undantekningarlaust í verðlaunasætum. Keppt var í einum flokki og voru þátttakendurnir úr 1. – 9. bekk. Tefldar voru sex umferðir og mótið því jafnt og spennandi til loka. Eftir lokaumferð kom í ljós að þrír keppendur reyndust efstir og jafnir, bekkjarbræðurnir Arnór Gunnlaugsson, Joshua Davíðsson og Ríkharða Skorri Ragnarsson í 8 – RMA með 5 vinninga af 6 mögulegum. Efst stúlkna varð Embla Sólrún Jóhannesardóttir 7-HS og í flokki yngsta stigs var það Sindri Snær Hjaltason í 4. bekk sem reyndist hlutskarpastur. Þeir Arnór, Joshua og Ríkharð Skorri urðu að heyja einvígi um skólameistaratitilinn og þá stóð Arnór uppi sem sigurvegarinn, annað árið í röð. Átta keppendur unnu til verðlauna sem komu frá Dómino´s og SAM bíóunum. Skákmót Rimaskóla fór nú fram í 26. sinn eða allt frá því að skólinn var stofnaður. Meðal sigurvegara í gegnum árin má telja stigahæsta skákmann landsins, stórmeistarann Hjörvar Stein Grétarsson og skákmeistarana Dag Ragnarsson, Oliver Aron Jóhannesson og Jón Trausta Harðarson sem allir tefla í dag í 1. deild fyrir A sveit Fjölnis á Íslandsmóti skákfélaga.