Skip to content

Einstök veðurblíða í skóginum – Leikhúsgestir skemmtu sér vel

Tíunda árið í röð léku nemendur 6. bekkjar Rimaskóla leikrit undir berum himni í grenndarskógi skólans innst í Grafarvogi. Rjóður skógarins urðu að lifandi leiksviði þar sem leikritið var um Hróa hött og kappa hans. Skírisskógur varð ljóslifandi veruleiki í Grafarvoginum þegar 50 búningaklæddir krakkar léku út um allan skóg og þar tókust á liðsmenn Hróa og félaga annars vegar og fógetans illræmda í Nottingham hins vegar. Hrói höttur laðaði að sér dæmdum bardagamönnum og öðrum sveitungum sem misbauð óréttlæti fógetans. Hrói réttlætti gjörðir sínar með því að ræna frá þeim ríku og gefa hinum fátækari. Í lok leikritsins höfðu allir liðsmenn gerst liðhlaupar og gengið til móts við liðsmenn Hróa hattar. Réttlætið sigraði ranglætið. Eins og áður segir er grenndarskógur heillandi svæði fyrir útileikhús. Ekki skemmdi fyrir að veðurguðirnir léku á alls oddi, með glampandi sól og skógarlogni. Leikstjóri 6. bekkjar að þessu sinni var Íris Stefanía Skúladóttir leikari og naut hún aðstoðar umsjónarkennara árgangsins og handavinnukennaranna Jónínu Margrétar og Haralds Hrafnssonar. Rimaskóli hefur hlotið Hvatningarverðlaun Skóla- og frístundasviðs fyrir verkefnið Leikhús í skóginum. Að þessu sinni voru fjórar sýningar í grenndarskóginum ætlaðar nemendum, starfsfólki og foreldrum skólans. (HÁ)