Skip to content

Skólahald eftir 4. maí 2020/ Procedury obowiązkowych zajęć szkolnych i rekreacyjnych od 4 maja 2020

Á morgun er fyrsti maí og þá um leið frídagur verkalýðsins og frí í skóla. Eftir helgi byrjum við á venjulegu skólastarfi samkvæmt stundaskrá. Nú þarf að bretta upp ermar og klára eins og hægt er námsefni annarinnar. Það má búast við því að sumir þurfa að leggja meira á sig en aðrir en misjafnt er hversu virkir nemendur voru á meðan skólahald var takmarkað. Foreldrar eiga að hafa fengið sendan póst frá Skóla- og frístundasviði  um verklag grunnskóla og frístundastarfs frá 4. maí – (Procedures of elementary school and leisure activities from the 4th of May/ Procedury obowiązkowych zajęć szkolnych i rekreacyjnych od 4 maja 2020).

Það sem við viljum sérstaklega árétta er að foreldrar ítreka við börnin sín um hreinlæti og sprittun. Mikilvægt er að nemendur fari eftir fyrirmælum og virði 2 metra regluna við starfsfólk. Þetta á sérstaklega við eldri nemendur okkar frá efri stigum mið- og unglingastigs. Nemendur sem eru með kvef- og flensueinkenni eiga að vera heima.

Foreldrar sem senda börnin sín ekki í skólann þurfa áfram að sækja um það leyfi sjá hér: https://rimaskoli.is/foreldrar/leyfisumsokn/  Sú verklagsregla er sett af yfirvöldum frá og með 4. maí  að allar leyfisbeiðnir þurfa nú að fara fyrir nemendaverndarráð og foreldrar þurfa að geta fullvissað skólayfirvöld að námið verður unnið heima fyrir. Sú krafa er jafnframt gerð að kennarar hafa samband við heimilin 2-3 í viku til að fylgja eftir stöðunni. Námsmat og annað þarf að fara fram og skoða þarf hvernig nemandi kemur og tekur próf/námsmat.

Foreldrar eiga ekki að koma inn í skólann nema þeir eigi erindi á fundi eða annað sem hefur verið ákveðið í samráði með skóla. Alltaf skal gefa sig fram við skrifstofu. Samkvæmt tilmælum þá verða ekki vorhátíðir eða viðburðir með foreldrum það sem eftir er þessa skólaárs. Skólaslit munu því fara fram án foreldra og munum við starfsfólk útfæra þau betur og kynna fyrirkomulagið. Það er því ljóst að margt verður öðruvísi en áður. Ekki er líklegt að útskriftaferðir hjá 10.bekk fari fram, skógarleikrit 6.bekkja mun ekki fara fram, vorskóli fyrir leikskólabörn með foreldrum verður ekki haldin o.s.frv. Við þurfum hins vegar að horfa til þess að í þessu árferði þá þökkum við fyrir hversu góða heilsu okkar nemendur og starfsfólk hafa búið við og vonumst til að svo verði áfram. Við gerum það besta úr aðstæðum en nú er áherslan á námið þar sem uppbrot er búið að vera mikið undanfarnar vikur.