Skip to content

Námsmat

Námsmat er órjúfanlegur hluti náms og kennslu. Megintilgangur námsmats er að leiðbeina nemendum um námið og hvernig þeir geti náð markmiðum þess. Námsmat á að vera upplýsandi og hvetjandi. Áhersla er lögð á þátttöku nemenda í námsmati og að námsmat leiðbeini þeim til að ná markmiðum náms. Námsmat er hæfnimiðað, en hæfni nemenda felst í þekkingu og leikni nemandans og hversu vel honum gengur að hagnýta sér þessa tvo þætti til framfara.

Námsmat fer fram jafnt og þétt á námstímanum. Námsmatsaðferðir eru fjölbreyttar, endurspegla áherslur í kennslu og taka mið af nemendahópnum. Áhersla er lögð á leiðsagnarmat, eða endurgjöf og samræður nemenda og kennara í námsmati. Markviss endurgjöf felst í skýrum námsmarkmiðum og upplýsingum til nemenda um til hvers er ætlast af honum, hvernig honum gengur að tileinka sér það sem lagt er upp með og hvernig hann nýtir áfram það sem hann hefur lært. Niðurstöður námsmats eru nemendum og foreldrum aðgengileg í Mentor.

Skipulag námsmats í Rimaskóla, byggt á skilgreindum hæfniviðmðum Aðalnámskrár grunnskóla. Leitast er við að byggja námsmatið í skólanum sem mest á leiðsagnarmati. Leiðsagnarmat metur fjölbreytta hæfni nemenda til lengri tíma. Leiðsagnarmat hvers nemanda er birt á Mentor og eiga nemendur og foreldrar að fá reglulegar og skýrar upplýsingar um kunnáttu og getu á hverjum tíma í hæfnikorti nemandans (sjá mynd). Með þessum hætti er lögð áhersla á að bæði nemendur og foreldrar fái tilfinningu fyrir því hvað hefur áunnist og hvert viðkomandi nemandi stefnir. Leitast er við að hafa námsmat fjölbreytt. Markmiðið með leiðsagnarmati er að vægi hefðbundinna prófa fari minnkandi og vinna nemenda verði metin jafnt og þétt. Með þessu móti er nemandinn í öndvegi og betur er komið til móts við einstaklingsmiðaðar þarfir nemenda í skólastarfinu. Í skólanámskrá kemur fram hvaða hæfniviðmið og matsviðmið liggja til grundvallar í hverri námsgrein fyrir sig. Hæfniviðmið Aðalnámskrár eru sá grundvöllur sem nám, kennsluhættir og námsmat eiga að byggja á. Hæfniviðmið í öllum námsgreinum á öllum stigum er að finna undir “Skólanámskrá” á heimasíðu skólans. Hæfniviðmið sem liggja til grundvallar í hverju verkefni eru að auki tilgreind í lotum námsgreinanna inni á Mentor.