Rimaskoli_stor-1238-800-600-80

Rimaskóli er grunnskóli þar sem grundvöllur starfsins er fræðsla og uppeldi sem byggir á Aðalnámskrá grunnskóla 2011 og þeirri stefnu sem mörkuð er af fræðsluyfirvöldum Reykjavíkur. Helsti áhersluþáttur í skólastarfinu er að nemendur, kennarar og annað starfsfólk nái hámarksárangri. Í starfi Rimaskóla er nemandinn í öndvegi. Samskipti eiga að grundvallast á gagnkvæmri virðingu, kurteisi og tillitssemi, sem er forsenda þess að hverjum og einum líði vel. Gagnkvæmt traust og jákvæð og uppbyggileg samskipti móta framar öðru góðan starfsanda. Traust og vingjarnleg samskipti móta framar öðru góðan skólabrag.

SÉRSTAÐA SKÓLANS

Í Rimaskóla er fjölbreytt og litríkt skólastarf haft að leiðarljósi. Skólinn hefur um árabil lagt áherslu á það að virkja nemendur á sem fjölbreytilegastan máta. Nemendum er boðið upp á skákkennslu og hafa margir góðir skákmenn og konur tekið sína fyrstu skák í Rimaskóla. Föstudagsfjör er fastur viðburður á stundaskrá yngstu nemendanna og nemanda á miðstigi. Hver bekkur æfir dagskrá einu sinni á ári og bíður samnemendum og foreldrum á viðburðinn. Rimaskóli hefur lagt mikla rækt við leiklist. Nemendur í 4.bekk setja upp helgileik á jólaföstu. Nemendur í 6.bekk setja upp jólaleikrit sem sýnt er á jólaskmmtunum skólans og nemendur í 7.bekk setja upp leikrit í skóginum á hverju vori. Leikrit í skóginum er sett upp í Vinaskógi í Grafarvogi, en þann skóg hefur skólinn í fóstri. Foreldrum, öllum nemendum skólans og velunnurum hans er boðið á sýninguna. Rimaskóli hefur um árabil verið í toppsætum á Stóru upplestrarkeppninni sem haldin er árlega. Rimaskóli er Heilsueflandi grunnskóli og hafa nemendur á mið- og gunglingastigi ekki látið sitt eftir liggja þegar kemur að íþróttaiðkun og heilsurækt og þykir orðið illviðráðanlegt að skáka skólanum á frjálsíþróttamóti grunnskóla Reykjavíkur, en við höfum haft sigur í bítum undanfarin ár.